Aðferða- og gæðahandbók í læknisfræðilegri myndgreiningu. 

Valmynd

Geislavarnir, lög og reglurSkaðsemi geislunar.

Uppgötvun röntgengeislans átti sér stað þegar þýskur prófessor að nafni Wilhelm Konrad Röntgen var að gera tilraunir með rafleiðni milli tveggja skauta í lofttæmdum glerhylkjum í nóvember 1895. Hann tók eftir því að ljós myndaðist á plötu sem var í nokkurri fjarlægð frá glerhylkinu. Platan var þakin zinksúlfíði og lýsti upp um leið og rafstraumur fór í gegnum glerhylkið. Það sama gerðist þótt glerhylkið væri vandlega hulið ljósþéttu klæði. Í kjölfar þessarar uppgötvunar fylgdu miklar rannsóknir í upphafi 19. aldarinnar á myndun, eiginleikum og áhrifum röntgengeislunar. Fljótt kom í ljós að geislun gat verið skaðleg. Líffræðileg áhrif hennar voru mikil og gátu jafnvel verið banvæn. Er ljóst að allmargir af brautryðjendum í notkun jónandi geislunar urðu um leið fórnarlömb hennar.

Lög og reglur.

Öflugar geislavarnir og reglur um þær voru því víðast hvar settar á stofn á 4. og 5. áratug 20. aldarinnar og skilgreindar nokkuð nákvæmlega gildar ástæður fyrir notkun geislunar.

Íslensk lög um geislavarnir, nr. 44/2002 (með seinni tíma breytingum), og framkvæmd þeirra hafa nú verið löguð að tilskipunum ESB þrátt fyrir að þær hafi  ekki lagalegt gildi hér.

Geislavarnir ríkisins gefa út reglur varðandi notkun jónandi geislunar og hagar stofnunin starfsemi sinni í samræmi við ráðleggingar Alþjóðageislavarnaráðsins (ICRP). Markmiðið er að halda geislaskömmtum eins lágum og mögulegt er án þess þó að það komi niður á gæðum rannsókna og rýri greiningargildi þeirra.

Geislavarnir eru stór hluti af starfi þeirra sem koma að læknisfræðilegri myndgreiningu á einn eða annan hátt. Má þar einu gilda hvort um er að ræða hönnun húsnæðis, uppsetningu, viðhald og viðgerðir tækja, blývarnir, öryggismál hvers konar eða menntun starfsmanna.

Mikilvæg atriði.

Rannsóknaleiðbeiningar þessar taka mið af lögum og reglum um geislavarnir sem má finna á vefsíðu Geislavarna ríkisins. Þar er einnig að finna fræðsluefni sem allt myndgreiningarfólk ætti að kynna sér.

Rétt er að benda sérstaklega á reglugerð 1299/2015 um geislavarnir vegna notkunar geislatækja sem gefa frá sér jónandi geislun, reglugerð 1290/2015 um hámörk geislunar starfsmanna og almennings vegna starfsemi þar sem notuð er jónandi geislun og reglugerð 1298/2015 um geislavarnir við notkun lokaðra geislalinda.