1. Barium skuggaefni
Notkunarsvið:
Skuggaefni sem byggð eru á Barium (Ba) henta vel til skuggaefnisrannsókna á meltingarvegi. Þau eru ýmist gefin um munn (oralt), þá kyngir sjúklingur skuggaefninu eða það er gefið með sondu, eða með slöngu í endaþarm (rectalt).
Blöndun:
Blanda skal bariumskuggaefni skv. leiðbeiningum á umbúðum eða sérstökum leiðbeiningum á hverjum vinnustað.
Eftirmeðferð:
Barium frásogast ekki í meltingarvegi og getur valdið hægðatregðu. Mælt er með að ráðleggja sjúklingi að drekka mikinn vökva eftir rannsókn og grípa til viðeigandi aðgerða ef hægðir verða tregar.
Þegar um inniliggjandi sjúklinga er að ræða er gott að benda starfsfólki viðkomandi deildar á það sama.
ATHUGIÐ:
Ef bariumskuggaefni er í meltingarvegi sjúklings nást ekki af honum nothæfar tölvusneiðmyndir (CT) og einnig getur bariumskuggaefni skyggt á upptöku geislavirks efnis við ísótóparannsóknir.
Oft líða u.þ.b. 2 sólarhringar frá því bariumskuggaefni er gefið, þar til það hefur tæmst úr meltingarveginum. Hjá sjúklingum með trega meltingarstarfsemi tekur það enn lengri tíma.
Rétt getur verið að staðfesta með röntgenmynd að baríumskuggaefnið hafi tæmst úr meltingarveginum, áður en CT eða ísótóparannsókn er bókuð.